Um mig
Það þótti frekar ósmart að ganga með gleraugu þegar ég var unglingur og því gekk ég ekki með gleraugu fyrr en ég var 15 ára gömul þótt ég væri hálfblind.
Þegar ég var 6 ára gömul þá opnaði fjölskylda mín gleraugnaverslunina Linsuna og frá 9 ára aldri vann ég í í búðinni í öllum sumarfríum. Á þessum tíma voru gleraugu meira nauðsynjavara en tískuvara og valdi fólk því yfirleitt gleraugu sem sáust helst ekki eða gleraugu sem áttu að passa við hverja einustu flík í fataskápnum.
Þegar ég var 17 ára gömul þá fékk Linsan fyrstu sendinguna frá Alain Mikli sem voru allt öðru vísi gleraugu en ég átti að venjast. Mikli notaði alls kyns liti, munstur og form sem ég hafði aldrei séð áður og var þetta í fyrsta skipti sem mér fannst gleraugu vera flott.
Ég fékk að velja mér eina umgjörð, svarta plast umgjörð með silfruðu skeljamunstri. Umgjörðin var mjög áberandi og óvenjuleg. Fram að þessu hafði ég verið frekar ósýnileg í skólanum en þegar ég mætti með nýju gleraugun þá varð uppi fótur og fit. Sumum fannst gleraugun fáránleg en öðrum fannst þau rosa smart. Á einu augnabliki fór ég úr því að vera ósýnileg yfir í að fá verulega mikla athygli. Þetta jók sjálfstraust mitt og var upphafið að því að ég byggði upp betri og heilbrigðari sjálfsmynd. Ég hætti að reyna að “fitta” inn og bjó til minn eigin stíl þar sem gleraugun gegndu mikilvægu hlutverki.
Árið 1988 flutti ég til Svíðþjóðar í nám og stofnaði þar ári síðar gleraugnaheildsöluna 4 Eyes. Heildsalan var ein af þeim fyrstu á markaðnum sem bauð verslunum í Svíðþjóð, Noregi og Danmörku upp á óvenjulegar og litríkar umgjarðir.
Á síðustu árum hafa gleraugu unnið sér sess sem tískuvara og þykja gleraugu ekki lengur hallærisleg heldur eru þau, rétt eins og aðrir fylgihlutir, hluti af tísku og fegurð. Fólk veigrar sér samt við að kaupa mörg til skiptana því þau eru dýr hér á landi.
Fyrir nokkrum árum síðan rakst ég á mjög óvenjulegar og skemmtilegar umgjarðir í Ameríku á mjög sanngjörnu verði. Ég keypti mér nokkrar og nokkrar fyrir vinkonur mínar sem nota gleraugu hér heima. Smám saman spurðist þetta út og vildu fleiri og fleiri að ég keypti handa þeim gleraugu úti.
Þetta varð upphafið af því að ég stofnaði “Töff gleraugu” og í dag er ég með kampavíns skvísuboð og gleraugnasýningu einu sinni á ári í Maí-Júní. Til mín koma konur á öllum aldri og gefst þeim tækifæri til að kaupa töff gleraugu á heildsöluverði. Þetta er mitt framlag til þeirra sem vilja eiga mörg gleraugu til skiftana án þess að þurfa að eyða í það fúlgum fjár.
Glerin í umgjarðirnar fæ ég á heildsöluverði hér á Íslandi og býð ég upp á eins árs ábyrgð bæði á umgjörðunum og glerjunum. Ég legg mig fram í að bjóða upp á gæða umgjarðir og góða þjónustu og getur fólk haft samband við mig og fengið að skoða og kaupa af mér gleraugu þegar ég er á landinu.